Spurt og svarað um COVID-19

Líkt og margir aðrir fylgist ég grannt með útbreiðslu SARS-CoV-2 veirunnar sem hefur haldið heiminum í heljargreipum síðustu vikur og ekkert lát virðist á. Þar sem búast má við að einhverjir séu að spyrja sig sömu spurninga, þá hef ég tekið saman svör sem ég vona að koma einhverjum að gagni.

COVID-19, SARS-CoV-2, kórónaveiran… hvaða heiti ber að nota?

SARS-CoV-2 er formlega heitið á veirunni sem gengur nú ljósum logum. Veiran kemur úr stórri fjölskyldu sem kallast einu nafni kórónaveirur og valda öllu frá saklausu kvefi upp í mun alvarlegri öndunarfærasjúkdóma sem draga stóran hluta þeirra sem smitast til dauða (SARS, MERS). SARS-CoV-2 er náskyld SARS veirunni sem er ástæðan fyrir nafngiftinni. Hinsvegar eru lífslíkur þeirra sem smitast af SARS-CoV-2 sem betur fer töluvert betri. Veiran hefur líka verið nefnd Wuhan veiran, þar sem hún kom fyrst upp í Wuhan borg í Kína, sem vill svo til að er vinabær Kópavogs (!). COVID-19 er svo heitið á sjúkdómnum sem veiran veldur, sem stendur fyrir Coronavirus disease 2019.

Eitt er víst að sjúkdómurinn mun væntanlega fá hljómþýðara nafn en COVID-19 þegar fram líða stundir. Fram að því mun ég nota heitið COVID-19.

Af hverju er gert svona mikið úr COVID-19? Drepur ekki hefðbundin flensa margfalt fleiri á hverju einasta ári?

Á síðasta ári er talið að 650 þúsund manns hafi látist úr hefðbundinni flensu á heimsvísu. Það voru óvenju margir en breytir því ekki að gríðarlegur fjöldi deyr á hverju ári án þess að sérstakt veður sé gert út af því. Ástæða þess að svona margir látast úr hefðbundinni flensu liggur ekki í hárri dánartíðni. Þvert á móti er hún tiltölulega lág eða undir 1 af hverjum 1000 smituðum. Það sem gerir hefðbundna flensu svona mannskæða er fjöldinn sem hún smitar. Ef við gefum okkur að dánartíðnin í fyrra hafi verið 1 á móti 1000 þá myndu 650 milljónir hafa smitast það árið.

Það sem gerir nýju veiruna hættulegri er sú staðreynd að dánartíðnin er ekki aðeins margfalt hærri heldur er hún jafnframt enn meira smitandi. Ef ekkert væri gert til að sporna við henni myndu því mun fleiri láta lífið á endanum. Það er marklaust að bera saman þann fjölda sem hefur látið lífið á þeim stutta tíma síðan sjúkdómurinn varð að heimsfaraldri við heildarfjölda þeirra sem deyja úr einhverjum öðrum sjúkdómi á heilu ári líkt og maður hefur séð gert.

Hvaða tölfræði ættum við helst að vera að fylgjast með?

Talan sem skiptir mestu máli er fjöldi þeirra sem þarf á gjörgæslu að halda. Allar aðgerðir ganga út á að sú tala verði ekki hærri á hverjum tíma en heilbrigðiskerfið ræður við. Nokkrir tugir látast þegar úr hefðbundinni flensu á Íslandi á hverju ári – voru 20 árið 2017 sem eru nýjustu tölur Hagstofunnar (heimild). Þegar haft er í huga að allt bendir til að nýja flensan sé jafnvel enn skæðari er ljóst að við munum sjá dauðsföll vegna hennar. Í einhverjum tilvikum er það fólk sem hefði hugsanlega látist annars úr hefðbundinni flensu. Það mun líka vera fólk með undirliggjandi sjúkdóma, sem er sérstaklega viðkvæmt fyrir þessum nýja stofni sem engin lyf er til við. Við viljum eftir fremsta megni forða því að heilbrigðisstarfsfólk verði sett í þá stöðu að þurfa að velja hver lifir og hver deyr vegna skorts á mannafla, lækningatækjum og öðrum búnaði. Til þess þurfum við að halda fjöldanum sem þarf á bráðri þjónustu að halda innan marka.

Þegar þetta er skrifað er einn á gjörgæslu hér á landi vegna COVID-19. Hinsvegar má ætla að það verði stutt í að fleiri þurfi á slíkri þjónustu að halda. Ísland má ekki verða önnur Ítalía, þar sem þörfin er víða komin langt fram úr getunni þótt aðeins séu liðnar rúmar 3 vikur síðan greind tilvik náðu 100 í landinu öllu.

Hvað þá með aðra tölfræði?

Fyrirferðarmestu tölurnar í fjölmiðlum eru fjöldi greindra smita og fjöldi látinna. Varðandi þá fyrri þarf að hafa í huga að skimun fer fram með ólíkum hætti í ólíkum ríkjum. Mörg ríki hafa ekki burði til að skima. Í öðrum ríkjum þar sem skimun stendur öllum til boða má samt sem áður búast við að þeir sem eru einkennalausir eða með mjög væg einkenni leiti síður eftir staðfestingu á smiti. Smit eru því eðli málsins samkvæmt vantalin. Það hefur svo aftur áhrif á reiknaða dánartíðni sem verður þar með ofmetin. Það breytir því ekki að dánartíðnin er töluvert hærri en hefðbundinnar flensu.

Það getur hinsvegar verið fróðlegt að skoða fjölgun greindra smita og bera hana saman milli landa. Ég hef útbúið nokkur stjórnborð sem gera það og eru öllum aðgengileg hér:

COVID-19 | Þróun staðfestra smita í völdum ríkjum

Hverjir eru að deyja úr COVID-19?

Dauðsföll ráðast annarsvegar af líkunum á því að viðkomandi þrói með sér alvarlega kvilla (fyrst og fremst lungnabólgu) og hinsvegar af því hversu vel er hlúð að honum eða henni. Mikilvægustu þættirnir varðandi það fyrra eru aldur og undirliggjandi sjúkdómar.

Þá er rétt að hafa í huga að þær tölur sem hafa birst um þetta eru annarsvegar metnar líkur á því að einstaklingur í tilgreindum hópi látist (e. mortality rate) og svo hinsvegar dauðsföll eftir hópum. Þar sem við vitum ekki hversu margir eru smitaðir í raun (enda kann stór hluti að vera án nokkurra einkenna), er yfirleitt settur sá fyrirvari á dánartíðni að hún sé reiknuð út frá greindum tilvikum. Það flækir samanburð milli ríkja að sum ríki ganga langt í skimun meðan önnur hafa ekki burði til þess. Skoða verður þá dánartíðni sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (e. The World Health Organization) styðst við með þetta í huga en hún er metin 3,7% eins og er væntanlega töluvert lægri þegar tekið er mið af hinum þögla ógreinda fjölda.

Tölur um dauðsföll eftir hópum, sérstaklega aldurshópum, eru eðli málsins samkvæmt áreiðanlegri. Þar kemur hinsvegar til sögunnar seinna atriðið sem ég nefndi, það er hversu vel er hlúð að sjúklingum. Hátt hlutfall þeirra sem látast í elsta aldurshópnum skýrist að hluta til af því að við þær fordæmalausu aðstæður sem við stöndum frammi fyrir hefur heilbrigðisstarfsfólk neyðst til að velja á milli sjúklinga og mun þurfa að gera enn frekar þegar fram líða stundir.

Greining á dauðsföllum á Ítalíu (heimild) sýnir að 57% sem hafa látist þar voru 80 ára eða eldri, 32% voru á áttræðisaldri og 11% undir sjötugu, þar af 0,3% undir fimmtugu, enda hefur allt kapp verið lagt á að bjarga yngsta fólkinu.