
COVID-19 hóf innreið sína á Norðurlöndum þann 28. janúar í Finnlandi. Þremur dögum síðar greindist sjúkdómurinn í Svíþjóð. Bæði tilvikin má rekja beint til Kína. Noregur, Danmörk og Ísland sáu sín fyrstu tilfelli í febrúar þegar skíðaferðalangar sneru heim úr Ölpunum, og Færeyjar og Grænland bættust svo í hópinn í mars.
Hagstæð aldurssamsetning en takmarkaður fjöldi gjörgæslurýma
Bæði Spánverjar og Ítalir er betur í stakk búnir en Norðurlandabúar þegar kemur að fjölda rúma sem henta gjörgæslu (ICU/CCB rúm). Á Norðurlöndum eru flest slík rúm á Íslandi eða 9,1 á hverja 100.000 íbúa en fæst eru þau í Svíþjóð eða tæplega 6 á hverja 100.000 íbúa. Á móti kemur að Norðurlandaþjóðirnar eru nokkuð yngri, en það hefur mikið að segja þegar um er að ræða sjúkdóm sem herjar sérstaklega á eldra fólk. Þannig munar til dæmis 11,6 árum í miðgildi aldurs grænlensku og ítölsku þjóðarinnar (skipti úr eldri tölum).
Útbreiðslan væntanlega minni á Norðurlöndum en í samanburðarríkjunum
Þegar þetta er ritað hafa tæplega 11.000 smit verið staðfest á Norðurlöndum og tæplega 1.000 bætast við á sólarhing. Þetta eru þó mun færri smit á hverja 100.000 íbúa en hafa greinst á Ítalíu og Spáni.
Ætla má að meira en 1.000 liggi á sjúkrahúsum á Norðurlöndum vegna COVID-19, en staðfesta tölu um það vantar frá Svíum. Svipað margir liggja inni í Noregi, Danmörku og á Íslandi sem hlutfall af fólksfjölda, en nokkuð færri í Finnlandi. Sama gildir um sjúklinga í gjörgæslu. Hlutfallið er þrisvar sinnum hærra á Ítalíu og enn verra á Spáni.
Erfitt er að segja til um útbreiðslu í samfélaginu. Norðmenn, Færeyingar og Íslendingar hafa gengið mun lengra í skimun en frændur okkar í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Svíar hafa gefið það út að þeir séu hættir að greina aðra en þá sem þurfa á innlögn að halda. Hinsvegar bendir ýmislegt til þess að útbreiðslan séu töluvert minni á Norðurlöndum en á Spáni og Ítalíu. Bæði Spánverjar og Ítalir hafa stóraukið sýnatöku að undanförnu, en fóru mun seinna af stað.
Lág dánartíðni á Norðurlöndum, sérstaklega í Finnlandi, Noregi og á Íslandi
Hátt í annað hundrað hafa þurft að lúta í lægra haldi fyrir sjúkdómnum á Norðurlöndum þegar þetta er skrifað. Hlutfallslega er það hinsvegar töluvert betra en við erum að sjá á Spáni og Ítalíu. Að nokkru leyti má skýra þetta með hagstæðari aldurssamsetningu, þeirri staðreynd að ástandið á gjörgæslum er enn viðráðanlegt á Norðurlöndum og þeim aðgerðum sem hefur verið gripið til.
Það eru ákveðnar vísbendingar um að dánartíðni sjúkdómsins geti verið eitthvað lægri en ætla mátti af fyrstu tölum frá Kína. Í því sambandi er fróðlegt að skoða eina dæmið um þýði þar sem allir hafa verið mældir, sem er Diamond Princess skemmtiferðaskipið sem kyrrsett var í Japan. Af þeim rúmlega 3.600 sem voru um borð smituðust í kringum 700 manns eða 19%. Rúmlega helmingur þeirra sýndi engin einkenni. Tíu dauðsföll hafa verið rakin til sjúkdómsins og 15 liggja enn alvarlega veikir. Reiknuð dánartíðni samkvæmt þessu er 1,4% og það þrátt fyrir tiltölulega háan meðalaldur smitaðra.
Háa dánartíðni á Ítalíu má að nokkru leyti skýra með hærra hlutfalli eldra fólks, þeirri staðreynd að heilbrigðiskerfið ræður ekki lengur við ástandið og ekki síst því af því að staðfest smit ná ekki til nema hluta þeirra sem eru sýktir í raun.
Rétt er að hafa í huga að þegar um er að ræða faraldur í vexti er réttast að taka mið af meðalfjölda þeirra daga sem líða frá því að sjúkdómurinn greinist og þar til sjúklingar látast þannig að ekki sé verið að reikna hlutfallið út frá staðfestum smit eins og þau standa í dag. Á móti kemur að búa má við að staðfest smit séu einungis brot af þeim fjölda sem raunverulega er sýktur, sérstaklega í ríkjum þar sem hlutfallslega fáir hafa verið skimaðir.
Heimildir
Byggi á opinberum gögnum, eins og framast er unnt.
Gjörgæslurými: Svokölluð ICU-CCB beds, upplýsingar fengnar af Wikipedia – ekki glænýjar upplýsingar, meira til viðmiðunar.
Fólksfjöldi: Opinberar tölur fyrir árið 2019, eins og þær birtast í gegnum Wikipedia.
Miðgildi aldurs: CIA World Factbook, miðast við árið 2018.
COVID-19 á Íslandi: https://www.covid.is/ – gjörgæslu innlagnir er að finna hér: https://www.landspitali.is/default.aspx?pageid=b629a8e0-b262-49e0-b842-0f776cb4241e&fbclid=IwAR3lDzHNpY2ErjtBqOmBPKQbVSH5MIXV80q4M0Qb42wN8YSEfpWGiPLwKI8 – andlát eru fengin úr fréttum, er ekki komin inn á upplýsingasíðurnar þegar þetta er ritað.
COVID-19 í Danmörku, Færeyjum og Grænlandi: https://www.sst.dk/da/corona/tal-og-overvaagning
COVID-19 í Noregi: https://www.fhi.no/sv/smittsomme-sykdommer/corona/dags–og-ukerapporter/dags–og-ukerapporter-om-koronavirus/
COVID-19 í Finnlandi: https://thl.fi/fi/web/infektiotaudit-ja-rokotukset/ajankohtaista/ajankohtaista-koronaviruksesta-covid-19/tilannekatsaus-koronaviruksesta
COVID-19 í Svíþjóð: https://www.folkhalsomyndigheten.se/smittskydd-beredskap/utbrott/aktuella-utbrott/covid-19/aktuellt-epidemiologiskt-lage/ – Svíar virðast ekki vera með uppfærða tölu um fjölda innlagna, aðeins gjörgæsluhlutann
COVID-19 á Spáni: https://covid19.isciii.es/
COVID-19 á Ítalíu: https://github.com/pcm-dpc/COVID-19/blob/master/dati-andamento-nazionale/dpc-covid19-ita-andamento-nazionale.csv